þetta líður hjá
Þetta líður hjá er stóll úr grágrýti sem staðsettur er við Varmá í Hveragerði. Sætið hjó ég út um sumarið 2019 og þetta er fyrsta stóra útilistaverkið mitt. Hugmyndina að því að hafa stól við ána átti Elísabet Jökulsdóttir og hófst samstarf okkar við Hveragerðisbæ um vorið. Við erum bæði höfundar verksins.
Ég fann stóra kúlusteina á leiðinni milli Hveragerðis og Þorlákshafnar og leist vel á nokkra. Áður veltust þeir um í hafrótinu en eru nú komnir langt inn í land. Steinninn sem sætið er hoggið í kemur úr Núpafjalli. Glöggir geta séð móta fyrir ref í löguninni og í mynstrinu í setunni og í stólbakinu.
Verkið er tileinkað unglingum og vísar titillinn til þess að geðræn vandamál, vanlíðan og önnur líðan líða hjá eins og áin og gott er að setjast á steininn og hugsa til þess.